5.5.2008 | 01:44
Sól, rigning, rok og skafrenningur....
Þannig hljómar veðurlýsingin á ferðinni sem ég fór í á laugardaginn en þá var haldið á Eyjafjallajökul. Dagurinn byrjaði á því að ég sótti nágranna minn kl. 6:50 og brunuðum við svo sem leið liggur upp að Húsgagnahöll. Á leiðinni á leiðinni var ég spurður hvort ég hafi séð frétt á Vísi um konuna sem hafði dottið eina 20 metra niður í sprungu á Eyjafjallajökli sem ég hafði ekki séð. Mjög góðar fréttir svona í byrjun dags . Eins og oft áður var hist upp við Húsgangahöllina og sameinast í bíla þar. Vorum við 15 sem vorum mætt þarna og fljótlega var lagt af stað í austur átt. Var brunað sem leið liggur til Hvolsvallar og var tekið smá stopp þar rétt til að teygja úr sér og fá sér eitthvað að borða áður en farið var til Seljavallalaugar. En við gengum upp frá sundlauginni upp á jökulinn. Þegar þangað var komið var farið og tekið sig til og undirbúið að leggja af stað en þá var smá rigning svo það var skellt sér í regngallana. Þá kom hundur einn á svæðið sem labbaði með okkur upp en mér skilst að hann sé búinn að fara þó nokkrar ferðir á jökulinn. Lagt var af stað rétt fyrir 10. Þegar við vorum hálfnuð með fyrstu brekkuna skánaði veðrið svo að við þurftum að fækka örlítið fötunumen þá sáum við að nýr gönguhópur var kominn á bílaplanið við sundlaugina. Var svo haldið áfram og ekki leið á löngu þar til við þurftum að bæta aftur á okkur fötum vegna veðurs og hélst það ástand út ferðina. Var bara tekið eitt matarhlé í ferðinni því að veðrið bauð ekki upp á annað sem var tekið rétt um hádegi. Hafði þá hópurinn sem við sáum niðri á bílaplaninu tekið fram úr okkur, við erum greinilega ekki hraðskreiðasti hópurinn í fjallgöngunum og hundurinn stunginn af með þeim. Fljótlega eftir mat komum við að jöklinum sjálfum við fórum við þá fljótlega í beltin beltin og allir í línu til að gæta fyllsta öryggis. En ég fékk beltið og ísöxi á leigu í Fjallakofanum. En ekki kom til að ég þurfti að nota ísöxina né broddana sem ég var með í bakpokanum. Var færið þungt á jöklinum sjálfum og laus snjór yfir öllu. Þegar við vorum komin í um 1200 metra hæð þá mættum við hópnum sem fór fram úr okkur og sögðu þau að þau hafi ekki farið upp á toppinn því það væri það slæmt veður fyrir ofan að þau hafi ákveðið að snúa við en við héldum áfram. En þegar við áttum eina 150 metra í hækkun var ákveðið að snúa við því að veður var það slæmt þarna. Sjálfur hefði ég verið til í að halda áfram því það amaði svo sem ekkert að mér og leið bara nokkuð vel fyrir utan það að ég var orðinn dálítið þreyttur. En við vorum í tveimur línum og var ákveðið að halda hópinn. Ferðin niður af jöklinum gekk nokkuð vel og var eitt stopp á leiðinni. Eftir að við vorum komin af jöklinum sjálfum þá tók erfið ganga við niður á móti því það var töluvert rok og fauk ég til og frá niður fjallið eins og allir aðrir í hópnum. Voru flestir sammála því að niðurferðin hafi verið töluvert erfiðari heldur en uppferðin. Eftir eina níu og hálfan tíma á göngu komust við loks að bílunum og í allri þessari göngu þá var bara eitt matarhlé en nokkur nasl stopp. Eftir að hafa teygt aðeins við bílana og tekið sig aðeins til var haldið af stað áleiðis til Selfoss þar sem ákveðið var að hittast og fá sér aðeins að borð áður en haldið væri til Reykjavíkur. Þegar við vorum komin þangað voru það vægast sagt stíft og þreytt fólk sem steig út úr bílunum og heyrðust stunur um allt bílaplanið við KFC á Selfossi . Eftir að hafa fengið sér smá snæðing þarna var svo haldið áleiðis til Reykjavíkur og eftir eina 15 tíma ferðalag skilaði ég af mér seinasta farþeganum.
Nú er farið að styttast í ferðin á "stóru þúfuna" og verður bara farið í léttar göngur þangað til og safnað orku.
Það er svo ýmislegt að gerast hjá Sóló framundan og er stefnan sett m.a. á að ganga Laugaveginn nú í sumar og verður byrjað að þjálfa fyrir það fljótlega eftir að búið verður að skella sér á Hnjúkinn. Eru þær æfingar líka hugsaðar fyrir þá sem eru að byrja göngur.
Það eru svo fleiri myndir úr ferðinni á Eyjafjallajökul í albúmi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.