18.2.2009 | 23:20
mættum 7 í göngu dagsins
Er þá mættur heim úr enn einni Esjugöngunni en við vorum 7 sem mættum að þessu sinni. Mætt var við Húsgangahöllina og sameinast í bíla og keyrt sem leið liggur upp að Esjurótum og þar var tekið sig til og settur bakpokinn upp og svo gengið af stað. Gengum við upp í um einn tíma og fórum við neðri leiðina og fórum upp að vaði. Var ég með eina 3 lítra í bakpokanum til að þyngja hann örlítið
Vil ég þakka þeim Ingu, Berglindi, Hönnu, Magga Sig, Eyrúnu og Soffíu fyrir ánægjulega göngu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2009 | 22:15
Önnur gangan á Esjuna
Í gær var fór ég í mína aðra æfingarferð á Esjuna og vorum við 6 sem mættum í gönguna Mættum við að vanda upp við Húsgagnahöll og sameinuðuðumst svo þar í einn bíl en við vorum fimm sem mættum þar. Var svo brunað upp að Esjurótum þar sem ein beið okkar enda kom hún frá Akranesi. Gengum við í rúman klukkatíma upp og fórum við neðrileiðina að þessu sinni og komumst við upp fyrir skilti 4 og upp á hæðina þar fyrir ofan. Tók gangan í heildina um tvo tíma. Færðin var þokkaleg en það var ekki mikil snjór í Esjunni að þessu sinni en dálítið um þjappaðan snjó í göngustígnum sem var dálítið háll. Hafði ég með mér eina 3 lítra af vatni til að þyngja bakpokann sem ég var með.
Að lokum vil ég þakka þeim Guðmundi Geir, Tryggva, Eyrúnu, Ingu og Lindu J þökk fyrir ánægjulega kvöld göngu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2009 | 01:48
Göngu æfingar byrjaðar aftur.
Já það er orðið ansi langt síðan maður hefur skrifað seinasta blogg og ætla ég að reyna bæta þar aðeins úr. Hef ég svo sem ekki gnegið mikið að undanförnu en átti frábæra ferð með Sólóklúbbnum á Laugaveginn í sumar þar sem við nutum veðurblíðunar alla ferðina. Eins fórum við í útilegu þar sem gengið var á Heklu. En nú er búið að setja markmið nú í vor og á að fara á tvö fjöll nú í vor. Annars vegar er það Hrútfjallstindar (1852m) og svo á að fara aftur á Hvannadalshjúk (2110m)Hvtasunnuhelgina 29maí til 1 júní. Fór ég í mína fyrstu æfingagöngu núna s.l. miðvikudag á Esjuna og vorum við ein 7 sem mættum í gönguna auk eins hunds. Gengum við um 70 mínútur upp og fórum langleiðina að steini. Áttum kannski 15-20 mínútur að steini. Í heildina tók þessi ganga okkur um tvo tíma. Færið var ágætt en það var töluert þjappaður snjór og nokkuð hálft að fara niður og það var orðið nokkuð rökkvað og erfitt að sjá hvar hált var. Var ég með mér í bakpokanum eina 4 lítra af vökva bæði til að drekka og til að drekka á leiðinni.
Að lokum vil ég þakka þeim Sigga, Guðmundi Geir, Önnu Brynhildi, Eyrúnu, Hildi og Hermanni fyrir ánægjulega göngu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2008 | 09:16
Frábær helgi, farið á Hvannadalshnjúk
Já nýliðin helgi líður seint úr minni en hún var nokkuð viðburðarrík. En á föstudaginn tók ég mér frí í vinnunni því að stefnan var sett á að fara síðdegis í austurátt, náðartiltekið austur í Öræfi. Upp úr tvö þá var ég sóttur af tveimur Sóló-félögum og var þá stefnan sett á Vík í Mýrdal en þar biðu þeir Stefán og Siggi Snæ eftir okkur ásamt fleiri hópum sem voru á leið í austurátt og var okkur boðið upp á kaffi og bakkelsi. Eftir stutt stopp þar og eftir að hafa kvittað í gestabókina var haldið áfram sem leið liggur austur í Skaftafell þar sem við hittum leiðsögumenn frá Íslensku Fjallaleiðsögumönnum og fenguð þar búnað sem við þurftum að fá fyrir gönguna; mannbrodda, sigbelti og ísöxi. Var svo farið þar sem við gistum en við höfðum fengið gistingu í Vesturhúsi, hérmá finna smá upplýsingar um húsið. Alls voru mætt þarna 20 manns en fjórir höfðu komið með okkur til halds og traust og til skemmtunar. En við göngufólkið fengum frábærar hjálp frá þeim sem ætluðu ekki að fara á Hnjúkinn að þessu sinni. En á meðan við vorum að sinna okkar málum eins og að yfirfara bakpoka og taka okkur til þá elduðu þau á meðan en að sjálfsögðu fengum við orkuríkan kvöldmat hakk og pasta. Ekki fengum við langan svefn þessa nóttina því við þurftum að fara á fætur kl 4 um morguninn því að við þurftum að vera mætt við Sandfellið 05:15. Eftir að hafa fengið sér morgunmat og klárað að fara yfir bakpokana var lagt af stað á staðinn sem við hittum hina hópana sem voru að fara upp. Alls voru um 76 að fara upp á vegum Íslenska Fjallaleiðsögumanna þennan dag auk annarra hópa. Eftir að hafa komið komið á sig bakpokan, stillt stafi og hlustað á smá ræðu frá leiðsögumönnum var haldið af stað. Var farið hægt og rólega af stað. Gengu Bace Camp-félagarnir með okkur fyrsta spölinn og fóru þeir mis langt því sumir fóru aðeins upp í Sandfellið og en aðrir upp í 1100 metra hæð eða þar sem við fórum í beltin og böndin. En fyrsta stoppið var í rúmlega 300 metra hæð en þar er lækur þar sem hægt er að ná sér í vatn og er það nokkuð gott vatn. Var þar fengið sér smá nasl og drukkið. Var svo haldið á sama rólega hraðanum upp en nú var stefnan sett á 1100 metra markið og þegar þangað var komið var tekið gott hlé og fengið sér vel að borða. En þar voru við komin upp í skýin og það var farið að kólna aðeins. Þá var ekkert annað að gera en að kveðja félagana sem höfðu farið með okkur upp og koma sér í sigbeltið og línuna. En vorum við 16 Sóló-félagar sem ætluðum á toppinn og skiptum við okkur á í tvær línur. Var ég í fyrri línunni og fengum við franskan leiðsögumann að nafni Maxi og auk mín voru í þeirri línu Magga Þóra, Elín Eiríks, Hermann, Ásta H, Björgvin, Inga og Siggi sem var aftastur í línunni. Svo í hinni línunnu voru Ester, Jói Egils, Berglind, Siggi Snæ, Ásta María, Maggi Sig, Kári og Halli en þau voru með íslenskan leiðsögumann að nafni Dagný. Fengum við smá tilsögn þarna frá leiðsögumönnunum þarna um hvernig við skildum bregðast við ef einhver skildi detta ofan í sprungu. Frá þeim stað þar sem við fórum í beltin og upp í um 1800 metra hæð er ein góð brekka og er hún um 5 km löng. Ég held að þetta sem með þeim lengri brekkum sem hægt er að finna á Íslandi. Í rúmlega 1500 metra hæð vorum við að fara upp úr skýjunum og það var farið að létta til. Eftir að hafa gengið upp brekkuna þá tók við slétta við og þar var fengið sér að borða áður en haldið var áfram að ganga. Þar var einnig búið að útbúa smáskýli þar sem hægt var að létta á sér án þess að vera í línunni. Sem betur fer voru þarna há ský líka en við fengum samt örlitla sólaglennu öðru hvoru en þó ekki mikla. Fólk var farið að hitna þarna verulega og farið að fækka fötum og voru sumir einungis í nærfötunum þarna. Sléttan þarna er um 4 km löng og fórum við hanaá um klukkutíma. Þegar við vorum komin að Hnjúknum sjálfum þá var aðeins stoppað og settir á sig mannbroddarnir og þeir sem vildu máttu skilja eftir bakpoka sinn áður en lagt var í síðustu brekkuna. Eftir að hafa nært sig smávegis var svo lagt í seinustu brekkuna og vorum við vopnuð ísexi, broddum og í bandi. Var farið frekar hægt yfir enda brekkan brött og nokkrar sprungur sem við þurftum að fara yfir. Sumar sprungurnar þurftum við að taka stórt skref yfir og en aðrar þurftum við að hoppa yfir en allir komust með glans yfir þær. Bara að hafa hugfast að hafa vel sterkt á línunni. Eftir rúmlega 8 tíma göngu þá vorum við komin á hæsta tind Íslands en við vorum þar um 14:08 og var þetta vel erfiðis virði. Voru sumir með eitthvað annað en bara vatn til að skála í á toppnum . Þarna var aðeins notið þess að vera uppi og að sjálfsögðu teknar nokkrar myndir. Nokkra mánaðar undirbúningur hafði skilaði sér þarna og öll fórum við upp sem lögðum af stað. Eitthvað voru menn svo að spá í næstu verkefni þarna uppi og voru þá einna helst að skoða Hrútfellstinda fyrir næsta ár. Gekk ferðin niður af Hnjúknum ágætlega og var svo aftur tekið nestisstopp og farið úr broddunum. Var svo gengið eftir sléttunni og stoppað aftur þar sem skýlið er og var fenið sér smá nasl áður en farið var lengra. Var svo nánast gengið í einni lotu niður í 1100 metrana þar sem fórum í beltin og línuna. Mér fannst þægilegt að ganga í snjónum þrátt fyrir að töluverð snjóbráð hafði verið yfir daginn. Í 1100 metrunum var farið úr línunni og beltinu og farið í betri skjólflíkur enda vorum við komin niður í kalda þokuna áður en við brunuðum niður í rúmlega 700 metra hæð þar sem við komust á fast land. Þá fannst mér dálítið erfitt að ganga enda var maður orðinn dálítið þreyttur og dálítið grýtt undir fót. Fór líka svo að það fór að teygjast á hópnum á þessum stað. Var svo gengið eftir slóða niður Sandfellið og á þann stað sem við lögðum af stað. Eftir eina 13 tíma göngu og 45 mínútum betur var gott að komast á jafnsléttuna aftur. En þar voru svo mætt "Bace-camp" fólkið okkar sem höfðu notið þess að vera á jafnsléttunni á meðan við fórum í þessa göngu. Það hafði reyndar aðeins bæst við í hópinn og var Elín Einars mætt á svæðið einnig.
Á heimleiðinni var skellt sér í örstutta sundferð á Svínafell en þar voru sturtunnar frekar kaldar. Ég lét mér nægja að fara bara í sturtu þarna því það var gjörsamlega troðið í pottana. En eftir þessa stuttu sundferð þá var haldið sem leið liggur í Vesturhús en þar hafði Bace-Camp fólkið (Stefán, Addi, Linda, Helga og Elín Einars) byrjað að elda mat en Stefán hafði tekið að sér að versla í matinn og var boðið upp á Lambalæri, grænmeti á grillteini ásamt fleira meðlæti og svo í eftirrétt var boðið upp á heita súkkulaði köku með ís, rjóma og smávegis af bláberum . Eftir það fór fólk að hverfa og koma sér í bólið enda þetta búið að vera langur dagur eða 20 tímar og nokkuð erfiður.
Heimferðardagurinn var tekin frekar rólega og fólk bara að hvíla sig. Eftir morgunmat var tekin léttur göngutúr í tæpan klukkutíma. M.a. skoðuð Hofskirkja og aðeins rölt um. Var svo tekinn saman farangurinn og húsið þrifið og rennt svo af stað í bæinn. Stefnan var sett á að fara í sund á Hvolsvelli og borða þar. Sjálfur nennti ég ekki í sund eins og fleiri svo við skelltum okkur bara beint í matinn og fórum við á stað þarna sem heitir Gallerý-pizza og er mjög góður. Fórum við svo nánast beint í bæinn og var ég kominn heim rétt um 18.
Að lokum vil ég þakka Halla fyrir alla skipulagsvinnuna í vetur og aðstoðarmanni hans hann Sigga um að hafa nennt að draga mig og öll hin með sér um öll þessi fjöll. Vonandi verður framhald á þessu. Einnig að þakka Bace-camp fólkinu sem sá um okkur hin í ferðinni en þau gerðu mikið til að gera ferðina en skemmtilegri.
Það eru svo fleiri myndir í albúmi úr ferðinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2008 | 02:46
Seinasta æfingin í roki og rigningu
Ég fór í mína seinustu fjallgöngu fyrir Hnjúksferðina í dag enda eru bara rétt um 6 dagar í ferðina sem er búið að stefna á í dágóðan tíma. Vorum við tíu sem mættum upp við Húsgagnahöllina í dag um 11 leitið og keyrðum svo sem leið liggur upp í Jósefdal en stefnan var sett á Vífilsfellið. En fellið er nú ekki nema 665 metra hátt og hækkun um 305 metra. Þegar við vorum Vorum við rúma tvo tíma að fara upp og niður með því að stoppa aðeins á toppnum en þar var svo sem ekkert útsýni. Ekki náðum við að kvitta í gestabókina sem er þarna því lokið af boxinu sem geymir bókina var fokið af og bókin var einn blautur köggull. Skelin sem ég er í hélt nokkuð vel en varð þó lítillega blautur en verst var þó með sjónina en gleraugun voru blaut og kom einnig móða á þau
Eins og fyrr segir eru bara 6 dagar í ferðina á Hjúkinn og það er kominn smá spenningur i mig og ég held einnig í fleiri í hópnum því að það er búið að æfa vel fyrir ferðina og vonandi náum við á toppinn og fáum gott veður þannig að við getum notið ferðarinnar Ég verð nú að segja að þetta er með því skemmtilegra sem ég hef gert og í byrjun árs var ég ekki einu sinni með huga við að fara að ganga á hæsta tind á Íslandi en svona er lífið.
Í vikunni stefni ég svo á eina létta gönguæfingu og svo samráðsfund vegna ferðarinnar, já þetta er að bresta á
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2008 | 01:44
Sól, rigning, rok og skafrenningur....
Þannig hljómar veðurlýsingin á ferðinni sem ég fór í á laugardaginn en þá var haldið á Eyjafjallajökul. Dagurinn byrjaði á því að ég sótti nágranna minn kl. 6:50 og brunuðum við svo sem leið liggur upp að Húsgagnahöll. Á leiðinni á leiðinni var ég spurður hvort ég hafi séð frétt á Vísi um konuna sem hafði dottið eina 20 metra niður í sprungu á Eyjafjallajökli sem ég hafði ekki séð. Mjög góðar fréttir svona í byrjun dags . Eins og oft áður var hist upp við Húsgangahöllina og sameinast í bíla þar. Vorum við 15 sem vorum mætt þarna og fljótlega var lagt af stað í austur átt. Var brunað sem leið liggur til Hvolsvallar og var tekið smá stopp þar rétt til að teygja úr sér og fá sér eitthvað að borða áður en farið var til Seljavallalaugar. En við gengum upp frá sundlauginni upp á jökulinn. Þegar þangað var komið var farið og tekið sig til og undirbúið að leggja af stað en þá var smá rigning svo það var skellt sér í regngallana. Þá kom hundur einn á svæðið sem labbaði með okkur upp en mér skilst að hann sé búinn að fara þó nokkrar ferðir á jökulinn. Lagt var af stað rétt fyrir 10. Þegar við vorum hálfnuð með fyrstu brekkuna skánaði veðrið svo að við þurftum að fækka örlítið fötunumen þá sáum við að nýr gönguhópur var kominn á bílaplanið við sundlaugina. Var svo haldið áfram og ekki leið á löngu þar til við þurftum að bæta aftur á okkur fötum vegna veðurs og hélst það ástand út ferðina. Var bara tekið eitt matarhlé í ferðinni því að veðrið bauð ekki upp á annað sem var tekið rétt um hádegi. Hafði þá hópurinn sem við sáum niðri á bílaplaninu tekið fram úr okkur, við erum greinilega ekki hraðskreiðasti hópurinn í fjallgöngunum og hundurinn stunginn af með þeim. Fljótlega eftir mat komum við að jöklinum sjálfum við fórum við þá fljótlega í beltin beltin og allir í línu til að gæta fyllsta öryggis. En ég fékk beltið og ísöxi á leigu í Fjallakofanum. En ekki kom til að ég þurfti að nota ísöxina né broddana sem ég var með í bakpokanum. Var færið þungt á jöklinum sjálfum og laus snjór yfir öllu. Þegar við vorum komin í um 1200 metra hæð þá mættum við hópnum sem fór fram úr okkur og sögðu þau að þau hafi ekki farið upp á toppinn því það væri það slæmt veður fyrir ofan að þau hafi ákveðið að snúa við en við héldum áfram. En þegar við áttum eina 150 metra í hækkun var ákveðið að snúa við því að veður var það slæmt þarna. Sjálfur hefði ég verið til í að halda áfram því það amaði svo sem ekkert að mér og leið bara nokkuð vel fyrir utan það að ég var orðinn dálítið þreyttur. En við vorum í tveimur línum og var ákveðið að halda hópinn. Ferðin niður af jöklinum gekk nokkuð vel og var eitt stopp á leiðinni. Eftir að við vorum komin af jöklinum sjálfum þá tók erfið ganga við niður á móti því það var töluvert rok og fauk ég til og frá niður fjallið eins og allir aðrir í hópnum. Voru flestir sammála því að niðurferðin hafi verið töluvert erfiðari heldur en uppferðin. Eftir eina níu og hálfan tíma á göngu komust við loks að bílunum og í allri þessari göngu þá var bara eitt matarhlé en nokkur nasl stopp. Eftir að hafa teygt aðeins við bílana og tekið sig aðeins til var haldið af stað áleiðis til Selfoss þar sem ákveðið var að hittast og fá sér aðeins að borð áður en haldið væri til Reykjavíkur. Þegar við vorum komin þangað voru það vægast sagt stíft og þreytt fólk sem steig út úr bílunum og heyrðust stunur um allt bílaplanið við KFC á Selfossi . Eftir að hafa fengið sér smá snæðing þarna var svo haldið áleiðis til Reykjavíkur og eftir eina 15 tíma ferðalag skilaði ég af mér seinasta farþeganum.
Nú er farið að styttast í ferðin á "stóru þúfuna" og verður bara farið í léttar göngur þangað til og safnað orku.
Það er svo ýmislegt að gerast hjá Sóló framundan og er stefnan sett m.a. á að ganga Laugaveginn nú í sumar og verður byrjað að þjálfa fyrir það fljótlega eftir að búið verður að skella sér á Hnjúkinn. Eru þær æfingar líka hugsaðar fyrir þá sem eru að byrja göngur.
Það eru svo fleiri myndir úr ferðinni á Eyjafjallajökul í albúmi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2008 | 02:50
Kalt á toppnum
Sunnudaginn 20. apríl þá var hist á bílaplaninu upp við Húsgangahöll en það var búið að ákveða að fara á sjálfa Heklu. Hist var þar rúmlega átta og var farið að skipuleggja í bílanna og farið svo af stað rétt um hálf níu. Vorum við 19 sem lögðum af stað og á fjórum bílum. Var svo brunað sem leið lá austur um landssveit og gekk vel þar til komið var að afleggjaranum að Heklu sem færðin tók að þyngja. Eftir smá barning og smá festelsi þar sem slyddujeppa eigandinn naut sín var ákveðið að halda ekki áfram heldur leggja land undir fót og ganga restina að Heklu eða um 3 kílómetra. Ganga að bílastæðinu við Heklu tók um 75 mínútur og var fengið sér smávegis að borða þar áður en lagt var af stað á Hekluna sjálfa. Færið var frekar þungt enda óvíða þar sem maður óð snjó upp á miðja kálfa eða datt niður að hné í snjó. Eftir eina 6 tíma göngu frá þar sem við lögum bílunum þá stóðum við á toppinum á Heklu og margir hverjir frekar þreyttir og þar á meðal undirritaður. En því miður þá fóru ekki allir alla leið á toppinn því að einhverjirvildu snúa við því að það var ekki ekki skyggni á toppnum en eitthvert ský hvíldi þar á og einhverjir voru komnir í tímahrak en þá voru við í um 1300 metra hæð. Vorum við níu sem vildum halda áfram og klára dæmið og gengjum við eftir GPS tæki sem eftir var. Loksins þá fundum við þá aflíðandi brekku sem einn félagi okkar hafði sagt okkur frá, en áður en lagt var af stað var talað um aflíðandi brekkur væru þarna en þær voru ansi mis mikið aflíðandi. Þegar svo GPS-tækið sýndi að við værum í 1491 metra hæð og það meiri segja létti aðeins til þarna svo það var aðeins hægt að njóta þess að vera þarna á toppnum þó að útsýnið væri ekkert. Einhver hiti er í þeirri gömlu því á einum stað á leiðinni upp sáum við tvær holur þar sem hún hafði brætt af sér snjóinn og svo aftur á toppnum. En það var svo sem ekki stoppað lengi þarna uppi heldur lagt fljótlega af stað aftur niður. Var gengið nokkuð rösklega niður á leið þó vorum við með eina sem var hálf slöpp í löppunum. Þegar niður var komið þá var stoppað stutta stund aftur við bílastæðið sem þarna við Heklu og fengið sér smá hressingu og kvittað í gestabókina sem er þarna um að við hefðum farið alla leið. Svo eftir að hafa komið sér fram hjá hrauninu þá var tekin spretturinn í átt að bílunum og þessi ferð var um 23 kílómetra löng og var farin á um níu og hálfum tíma í nokkuð erfiðu færi. Nú er smá tími í að við förum í næstu stóru æfingu en væntanlega verður farnar einhverjar léttar göngur þangað til.
Það eru svo fleiri myndir úr ferðinni í albúmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2008 | 00:59
Einu sinni....
Vonbrigði á brúðkaupsnóttinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2008 | 02:56
Heiðmörk í góðu veðri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 02:35
Sóló-ganga
Því miður missti ég af seinustu gönguæfingu hjá hópnum sem ég er í en hann fór á Kerhólakamb seinasta fimmtudag en það er einn hlutinn af Esjunni. Sjálfur skellti ég mér á Esjuna í dag í þessu frábæra veðri en það var glampandi sól og blíða. Ég ákvað að prófa að ganga einn að þessu sinni en ekki með Sóló. Ég kominn upp að Esjurótum rétt fyrir kl. 13 en það var mikið um bíla þarna og greinilega að fólk var þarna að njóta veðursins. Gekk ég venjulegu gönguleiðina sem margir göngufélagar mínir eru komnir með leið á, eða leiðina á Þverfellshornið. Gekk ég í einum rykk upp að 3ja skilti eða upp í 240 metra hæð. En m.a. tilgangurinn hjá mér að fara einn á Esjuna í dag var sá að sjá hvernig ég gengi á fjallið á mínum hraða án þess að vera í hóp. Í stoppinu fékk ég mér smávegis að drekka og herða upp á skónum sem ég var í en ég var að endurnýja gönguskóna mína eftir að hafa gengið á þeim gömlu yfir 15 ár. Næsta stopp var upp við Steininn áður en haldið var áfram upp á toppinn. Það var mikill straumar af fólki upp á toppinn og það var kominn ágætis slóði í snjóinn sem er efstur í Esjunni sem er reyndar orðinn dálítið sleipur eftir átroðninginn. Þegar á toppinn var komið var að sjálfsögðu kvittað í gestabókina sem er þarna og svo notið þess útsýni sem var þarna í dag sem var mjög gott og mikil blíða á toppnum svo það hægt að njóta þess að vera þarna. Eftir smá stopp þarna var haldið niður á leið en það voru nokkrir útlendingar þarna og voru nokkrir af þeim í vandræði með að fara niður. Voru þeir svo sem ágætlega skóaðir en höfðu svo sem engan annan búnað eins og göngustafi eða annan búnað. En niðurleiðin gekk ágætlega en ég ætlaði að taka tíman á þessari göngu og stillti á skeiðklukkuna á símanum mínum en eitthvað hefur klikkað svo ég er ekki viss á tímanum á þessari göngu en hann var ekki alslæmur. Ég tók þessa mynd í dag og eins og áður sagði þá var ekki slæmt útsýni.
Svo er það annað í sambandi við göngur en ég hef lengi langað að fara út til Skotlands og ganga þar. Held að það sé mjög skemmtilegt að fara og ganga þar en ég fann íslendinga sem búa þarna úti og skipuleggja ferðir. Ég setti link á heimasíðu þeirra hérna á síðuna mína, eru þarna undir "Göngur" Ég veit svo sem ekki hvort ég fari með þeim en vonandi læt ég drauminn ræstast einhvern tímann
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)